Samvinnufélög leggja mikla áherslu að samfélagsverkefni. Samkvæmt árlegri skýrslu sem tekin er saman á vegum samvinnuhreyfingarinnar í Bretlandi vörðu samvinnufyrirtækin í smásöluverslu þar í landi um 12% hagnaðar á árinu 2016 til samfélagsverkefna sem er tvöfalt meira en helstu samkeppnisaðilar gerðu.
Verkefnin sem um ræðir eru gríðarlega fjölbreytt. Meirihlutinn fer til samtaka eða hópa sem eru að vinna að umbótum í sínu nærsamfélagi. Þarna eru líka góðgerðamál til að aðstoða þá sem standa höllum fæti og stutt er við samvinnufélög sem eru að stíga sín fyrstu skref. Hvatt er til þess að starfsmenn leggi sitt af mörkum til samfélagsins með sjálfboðaliðastarfi og að meðaltali varði hver starfsmaður 99 mínútum á viku til slíkra verkefna á árinu 2016.