Í tilefni þess að 120 ár eru liðin frá stofnun Sambands íslenskra samvinnufélaga, SÍS, verður haldin ráðstefna um samvinnstarf í nútíð og framtíð, laugardaginn 29. október næstkomandi. Á ráðstefnunni verður Jóns Sigurðssonar einnig minnst.

Auk þess sem 120 ár eru liðin frá stofnun SÍS, þá eru 140 ár liðin frá stofnun fyrsta kaupfélagsins hér á landi og er því ærið tilefni til að staldra við og líta fram á veg samvinnustarfs, bæði hér á landi og erlendis. Að ráðstefnunni standa auk sambandsins Háskólinn á Bifröst og Hollvinasamtök Háskólans á Bifröst.

Ráðstefnan hefst á hátíðarávörpum Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra og Hannesar Karlssonar, stjórnarformanns Sambands íslenskra samvinnufélaga.

Í tilefni dagsins er svo kominn hingað til lands Jon Altuna, vararektor Mondragón háskólans á Spáni fjallar um samvinnufélög þar í landi og Mondragón háskólann sem einnig er samvinnufélag. Jafnframt mun Kári Joensen, lektor við Háskólann á Bifröst, fjalla um samvinnufélög í nýjum hlutverkum og meistaranemar í lögfræði við HÍ, þeir Ágúst Guðjónsson og Bjartur Elíasson, bera saman lagaumhverfi samvinnufélaga á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum.

Þá minnast Jónas Guðmundsson, fyrrverandi rektor Samvinnuháskólans á Bifröst og Arnar Þór Sævarsson Jóns Sigurðssonar, (f. 23.08. 1946, d. 10.09. 2021), fyrsta rektors Viðskiptaháskólans á Bifröst og fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra og seðlabankastjóra m.m.

Ráðstefnan verður í Hriflu, hátíðarsal Háskólans á Bifröst kl. 13:00 – 17:00, en ráðstefnustjóri er Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst.

Þátttaka er ráðstefnugestum að kostnaðarlausu. Þátttakendur eru þó vinsamlegast beðnir um að skrá sig á vef háskólans, www.bifrost.is/radstefna

Sjá dagskrá ráðstefnunnar

Verið öll velkomin.