Árið 2025 er Alþjóðaár samvinnufélaga samkvæmt ákvörðun Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Kjörorð ársins er "Samvinna um betri heim" og verður efnt til viðburða í mörgum löndun af þessu tilefni og þar á meðal Íslandi. Háskólinn á Bifröst heldur alþjóðlega ráðstefnu í Hörpu 22. ágúst nk. þar sem samvinnurekstur og félagsdrifin fyrirtæki verða í brennidepli.
Samvinnufræði verðskulda meiri ástundun á Íslandi en tíðkast hefur hin síðari ár að mati háskólans. Vaxandi áhuga gætir nú víða á því að nýta samvinnumódelið til að mynda í skapandi greinum, hugverkaiðnaði og húsnæðismálum. Á alþjóðaárinu verður haldið áfram undirbúningi að stofnun rannsóknarseturs um valkosti í rekstrarformum. Meðal annars verða haldnar málstofur víða um land þar sem vegnar verða og metnar nýjar forsendur fyrir samvinnurekstri.
Hollendingurinn Jeroen Douglas var valinn aðalframkvæmdastjóri Alþjóðasambands samvinnufélaga á ársþingi sambandsins sem haldið var í Nýju Delí á Indlandi í nóvember síðastliðnum. Í byrjun september sækir Jeroen Douglas Ísland heim til þess að kynna starfsemi sambandsins sem hefur samvinnuhreyfingar frá 100 löndum innan sinna vébanda. Hann mun eiga hér skoðanaskipti við forystufólk í stjórnmálum og atvinnurekstri.
Í haust kemur út hjá Bókaútgáfunni Sæmundi umræðuritið Samvinnan á Íslandi eftir Jón heitinn Sigurðsson, rektor Háskólans á Bifröst, sem Sigrún Jóhannesdóttir, ekkja hans, og Vilhjálmur Egilsson, hagfræðingur og fyrrum alþingismaður, sem einnig var rektor háskólans, höfðu veg og vanda af og Jón Kristjánsson, fyrrum alþingismaðurog ráðherra, ritar formála fyrir.
Þetta er í annað sinn á þessari öld sem Sameinuðu þjóðirnar beina kastljósinu að samvinnufélögum með þessum hætti. Það er gert samkvæmt yfirlýsingu Antóníó Guterres, framkvæmdastjóra SÞ, vegna þess að þau virkja fólk úr fátækt, stuðla að þrautseigju og velmegun samfélaga og styðja við sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Á Íslandi starfa nokkur öflug samvinnufélög sem láta til sín taka í samfélagi og atvinnulífi. Í heiminum eru starfandi um 3 milljónir samvinnufélaga í mismunandi myndum, allt frá stórfyrirtækjum í velferðarsamfélögum til samyrkjufélaga í fátækum löndum. Þau hafa innan sinna vébanda um 1,2 milljarða félagsmanna og starfsfólk sem telur um 280 milljónir á sínum snærum. Til hins félagslega hagkerfis teljast svo margvísleg önnur félagsdrifin fyrirtæki og óhagnaðardrifin félög sem samanlagt eru verulegur hluti af efnahagsumsvifum heimsins.
Samband íslenskra samvinnufélaga, Háskólinn á Bifröst og samstarfsaðilar
Nánari upplýsingar á: www.2025.coop og www.bifrost.is/samvinna