Menningar og viðskiptaráðuneytið hefur sett í samráð frumvarp til breytingar á lögum um samvinnufélög, nr. 22/1991, lögum um Evrópufélög, nr. 26/2004, og lögum um evrópsk samvinnufélög, nr. 92/2006.

Með frumvarpinu eru annars vegar lagðar til breytingar á lögum um samvinnufélög, en breytingarnar eru þríþættar. Viðamest breytingin lýtur að sporna við því að félagsmenn í samvinnufélagi geti tekið félagið yfir og útdeilt eignum þess til félagsmanna í stað þess að styðja áframhaldandi uppbyggingu á starfssvæði eða á starfssviði félagsins. Er því lagt til að felld verði brott heimild til að breyta rekstrarformi samvinnufélags í hlutafélag, takmarkanir verði settar við hámarksfjárhæð aðildargjalds og þrengri skorður verði settar við slit félags. Einnig eru lagðar til breytingar á lágmarksfjölda stofnenda samvinnufélaga til að auðvelda stofnun slíkra félaga. Þá er í frumvarpinu að finna minniháttar lagfæringar á löggjöfinni til að gera hana aðgengilegri. Hins vegar er í frumvarpinu að finna tillögur um að sett verði almenn reglugerðarheimild í lög um Evrópufélög og lög um evrópsk samvinnufélög.

Sjá nánar hér, en umsagnarfrestur er til 19. mars nk.