Samtök evrópskra landbúnaðarsamvinnufélaga (Cogeca) héldu þann 21. júní sl. málþing um um hlutverk samvinnufélaga í orkuframleiðslu þ.e. undir yfirskriftinni: "Hvert er hlutverk samvinnufélaga við að framleiða hagkvæma, örugga og sjálfbæra orku?“.

Á málþinginu var vikið að mikilvægu hlutverki samvinnufélaga sem framleiðenda orku, jafnt sem neytenda. Byggt á reynslu frá Póllandi, Ítalíu, Hollandi og Spáni voru samstarfstækifæri í aukinni orkuframleiðslu rædd út frá sjálfbærnisjónarmiðum. Efnahagslegir möguleikar voru dregnir fram, sem og umhverfis- og loftslagsverðmæti sem oft er að finna í orku sem framleidd er af landbúnaðarsamvinnufélögum. Til dæmis þegar aukaafurðir frá frumframleiðslu eru notaðar til að búa til lífgas eða rafmagn.

Varaformaður Cogeca, Christian Høegh-Andersen, sagði í  fréttatilkynningu: „Með því að framleiða jarðefnalausa orku geta landbúnaðarsamvinnufélög lækkað orkukostnað bæði fyrir bændur og restina af samfélaginu og þar með létt álagi á hagkerfi heimilanna. Það styrkir ekki aðeins efnahagslegan stöðugleika heldur einnig félagslegt tengslanet á landsbyggðinni og stuðlar að sjálfbærum vexti og sjálfbærri þróun.“